Niðurstöðurnar á skjön við reynslu Íslendinga

Börn að leik við Gerðarsafn í Kópavogi. Þórólfur og Alma …
Börn að leik við Gerðarsafn í Kópavogi. Þórólfur og Alma segja að gögn hérlendis frá sýni að börn smiti og smitist síður en fullorðnir. mbl.is/Árni Sæberg

Landlæknir og sóttvarnalæknir segja niðurstöður rannsókna frá Ítalíu og Chicago í Bandaríkjunum sem benda til þess að börn gætu í raun verið helstu smitberar á skjön við það sem heilbrigðisyfirvöld hafi séð hérlendis. Í niðurstöðum rannsóknarinnar frá Chicago kom einnig fram að börn smitist auðveldlega af kórónuveirunni.

Niðurstöður rannsóknanna eru ekki tilefni til þess að endurskoða aðgerðir sem snerta börn, að mati sóttvarnalæknis og landlæknis og munu heilbrigðisyfirvöld hérlendis halda áfram að byggja tillögur sínar á reynslu af veirunni hérlendis.

Börn fædd 2005 og síðar eru undanskilin þeim sóttvarnareglum sem nú gilda í samfélaginu og kveða meðal annars á um að íþróttastarf þar sem snerting er nauðsynleg sé fellt niður, tveggja metra bili sé haldið á milli fólks og að aldrei komi fleiri en 100 saman samtímis.

Alma og Þórólfur ræða saman á upplýsingafundi almannavarna.
Alma og Þórólfur ræða saman á upplýsingafundi almannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

10-100 sinnum meira af veiru í nefkoki 

Umræddar rannsóknir voru til umfjöllunar hjá fréttamiðlinum Forbes í lok júlí. Sú frá Chicago var framkvæmd á barnaspítala og var þar styrkur kórónuveirunnar í nefkoki eða efri hluta hálsins sem tengist nefgöngum rannsakaður. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hafa börn sem eru fimm ára og yngri og þróa með sér væg einkenni COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, tíu til hundrað sinnum meira af kórónuveirunni í nefkoki sínu en eldri börn og fullorðnir. Það leiðir til þess að þau breiði veiruna frekar út en aðrir, að því er fram kemur í grein Forbes. Smituð börn eldri en fimm ára virðast þó hafa jafn mikið af veirunni í nefkoki og smitaðir fullorðnir.

„[Niðurstöður sem benda til þess að börn gætu verið helstu smitberar og að þau smitist auðveldlega] eru algjörlega á skjön við okkar reynslu og það sem við höfum séð hérlendis,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is og heldur áfram:  

„Við höfum ekki beitt hörðum aðgerðum hvað börn varðar og það gafst vel svo ég held að við nýtum okkur bara okkar niðurstöður og okkar reynslu.“

Minni hætta á að börn smitist en meiri hætta á að smita

Niðurstöður ítölsku rannsóknarinnar hafa ekki verið ritrýndar en um er að ræða víðtæka rannsókn á smitrakningu í Trento, borg innan sjálfsstjórnarsvæðis á Norður-Ítalíu. Í rannsókninni kom fram að þó minni hætta væri á að ung börn smituðust en fullorðnir og væru ólíklegri til að veikjast bæru börn fjórtán ára og yngri veiruna á skilvirkari hátt til fullorðinna en fullorðnir til annarra. Hættan á því að þau smituðu aðra var 22,4% á meðan sú hætta hjá fólki á aldrinum 30 til 49 ára var 11% en eins og glöggir lesendur taka eftir sýna rannsóknirnar tvær ekki það sama um smit barna. Sú frá Chicago telur börn eiga auðvelt með að smitast en ekki sú frá Ítalíu.

Mjög góð gögn til hérlendis

Alma segir að þau gögn sem til séu á Íslandi um smithættu barna séu mjög góð. Eins og áður hefur komið fram telja heilbrigðisyfirvöld hérlendis að börn séu ólíklegri til að smitast og smita aðra.

„Okkar gögn eru þannig gerð að raðgreiningar og smitrakningagögn eru borin saman, út úr því kom að börn smitast síður og þau smita síður frá sér. Þá veikjast þau líka minna.“

Alma og Þórólfur eru sammála um það að þau muni áfram byggja tillögur sóttvarnalæknis sem lagðar eru fyrir heilbrigðisráðherra á íslenskum gögnum um veiruna og hegðun hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert