Rafmagnslaust á Akureyri

Frá Akureyri í dag.
Frá Akureyri í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafmagnslaust er á Akureyri, Dalvík, í Eyjafirði og nágrenni vegna bilunar í kerfi Landsnets. Á heimasíðu Landsnets segir að leyst hafi út í tengivirkinu á Rangárvöllum með þessum afleiðingum, en unnið er að uppbyggingu á raforkukerfinu.

Bilun kom upp í tengivirkinu í morgun og þegar unnið var að því að laga bilunina sló út 66 kV-kerfi Landsnets, að sögn Einars Einarssonar, staðgengils upplýsingafulltrúa Landsnets.

„Það varð ansi víðtækt rafmagnsleysi í kjölfarið,“ segir Einar í samtali við mbl.is og að unnið sé að því að koma rafmagninu aftur á. Vonast sé til þess að það verði komið aftur á í kringum hádegi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is