Þakklæti og virðing í stað sorgar

Minnisvarði var reistur um slysið í Skerjafirði 7. ágúst 2005, …
Minnisvarði var reistur um slysið í Skerjafirði 7. ágúst 2005, en þá voru fimm ár liðin frá slysinu. mynd/vísir.is

Tuttugu ár verða á föstudag liðin frá einu mannskæðasta slysi íslenskrar flugsögu. Þann 7. ágúst árið 2000 hrapaði flugvél á leið frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur með þeim afleiðingum að allir fimm farþegar létust ásamt flugmanni vélarinnar. Farþegar vélarinnar voru ungmenni á heimleið úr Vestmannaeyjum eftir gleðskap á Þjóðhátíð í Eyjum.

Haldin verður virðingarathöfn á föstudag í Skerjafirði við minnisvarða sem reistur var til minningar um slysið. Athöfnin byrjar kl 18:00 og stendur í um klukkustund.

Minningin líður aldrei úr minni

Heiðar Austmann útvarpsmaður stendur fyrir athöfninni en vinur hans og uppeldisbróðir fórst í slysinu. Hann segir í samtali við mbl.is að minning vinar síns líði sér aldrei úr minni. Það sama segir hann að gildi um alla aðra sem misstu nákomna í slysinu. Ástvinir allra þeirra sem létust tóku vel í þá hugmynd að halda virðingarathöfn að sögn Heiðars þótt erfitt sé fyrir marga að rifja upp atburði 7. ágúst fyrir tuttugu árum. Heiðar segir tilganginn með athöfninni á föstudag vera að gleyma sorginni og láta þakklætið og virðinguna taka við. „Mig langar að fólk komi saman og finni það saman að allir þeir sem létust, ástvinir okkar allra, séu enn þá með okkur bæði í hugum og hjörtum,“ segir Heiðar.

Slysið varð vegna þess að flugturn tilkynnti vélinni sem fórst, þegar hún ætlaði að koma til lendingar á Reykjavíkurflugvelli, að önnur flugvél væri á flugbrautinni. Við þessi tíðindi tekur vélin aftur á loft en brotlendir skömmu síðar í Skerjafirði með þeim afleiðingum að einn lést samstundis. Aðrir farþegar voru fluttir ásamt flugmanni á sjúkrahús þar sem tveir létust. Tveir til viðbótar létust síðan innan árs eftir að hafa legið þungt haldnir á sjúkrahúsi. 

Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa missti annar hreyfill vélarinnar afl þegar hún tók á loft að nýju með þeim afleiðingum að vélin hrapaði.

Allir velkomnir

Líkt og áður segir mun athöfnin fara fram næsta föstudag við minnisvarðann um slysið sem staðsettur er í Skerjafirði. Heiðar segir alla þá sem með einhverjum hætti finnast þeir tengjast slysinu eða þeim sem létust vera velkomnir.

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindasókn í Kópavogi, mun leiða athafnargesti í bæn og segja nokkur orð. Sömuleiðis verður lag Kristjáns Kristjánssonar Englar himins grétu í dag spilað, en texti lagsins fjallar um slysið.

Heiðar segir athöfnina vera haldna í samvinnu við almannavarnir ríkislögreglustjóra og er fólk beðið um að huga að eigin sóttvörnum svo njóta megi stundarinnar sem best.

Áhugasömum er bent á Facebook-viðburð sem gerður var fyrir athöfnina en hann má finna hér

mbl.is