Lögreglan fylgist vel með Tívolí Akureyrar

Tívolíið leit vel út þegar ljósmyndari mbl.is átti leið þar …
Tívolíið leit vel út þegar ljósmyndari mbl.is átti leið þar fram hjá í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tívolí Akureyrar fær að opna í kvöld en tívolíið var ekki opnað um síðustu helgi eins og áður var ráðgert. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar, segir að bærinn hafi gefið leyfi fyrir tívolíinu með þeim fyrirvara að öllum sóttvarnareglum verði fylgt. 

„Lögreglan fylgist vel með því núna að öll leyfi séu uppfyllt,“ segir Ásthildur.

Hún telur að á meðan fjöldatakmarkanir séu virtar sem og tveggja metra fjarlægð sé haldið á milli fólks ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að allt fari vel fram. 

Tívolíið verður opnað í kvöld og verður fyrst opið frá klukkan sex til hálfátta og svo frá klukkan átta til hálftíu. 

Spurð hvers vegna opna hafi mátt tívolíið nú og ekki um síðustu helgi, verslunarmannahelgina, segir Ásthildur að þá hafi mun fleira fólk verið á Akureyri og smithættan því meiri. 

mbl.is