Ók um og stal öllu steini léttara

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður sem stöðvaður var grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum á fyrsta tímanum í nótt er grunaður um þrjá þjófnaði í gærkvöldi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á sjöunda tímanum var tilkynnt um þjófnað á rafskútu úr verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi og sást maðurinn á öryggismyndavél. Um klukkustund síðar var tilkynnt um þjófnað á fatnaði á hóteli í sama hverfi, en þar hafði maður komið inn á hótelið og stolið jakka frá hótelgesti sem sat á veitingastað hússins. Laust fyrir klukkan tíu var svo tilkynnt um þjófnað úr munum á búningsklefa, einnig í Háaleitis- og Bústaðahverfi, þar sem tveimur veskjum og bíllyklum var stolið. Er ökumaður fyrrnefndrar bifreiðar grunaður um alla þessa þjófnaði og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

mbl.is