Smitið á Austurlandi tengist lögregluþjónunum

Snæfell í Vatnajökulsþjóðgarði. Fyrsta smitið á Austurlandi kom upp í …
Snæfell í Vatnajökulsþjóðgarði. Fyrsta smitið á Austurlandi kom upp í hálendisskála í þjóðgarðinum. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Tveir lögreglumenn sem voru í sóttkví á Norðurlandi eystra voru útsettir fyrir smiti þar sem þeir umgengust manneskju sem síðar kom í ljós að var smituð, á Austurlandi en um var að ræða fyrsta smitið sem upp kom á Austurlandi í annarri bylgju faraldursins hérlendis. Þetta staðfestir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við blaðamann.

Lögreglumennirnir eru ekki grunaðir um smit og sýna engin einkenni. 

Smitið á Austurlandi kom upp í hálendisskála í Vatnajökulsþjóðgarði og greindist smitaða manneskjan á þriðjudag. Lögreglumennirnir tveir sinntu hálendiseftirliti norðan Vatnajökuls og hittu þar manneskju sem reyndist síðar smituð. 

Fleiri smit hafa ekki komið upp á Austurlandi í kjölfar þess að fyrsta smitið greindist en þar eru ellefu í sóttkví. Ekki er vitað hvernig smitið á Austurlandi kom til. 

Lögreglumennirnir tveir fara í sýnatöku og munu þeir sæta 14 daga sóttkví óháð því hvort þeir reynist smitaðir eður ei. 

Fréttin hefur verið uppfærð en áður voru lögreglumennirnir sagðir grunaðir um smit. Það eru þeir ekki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina