Útlit fyrir skólahald með óhefðbundnu sniði

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segist ekki geta sagt til um hvernig skólahald við háskólann muni fara fram í vetur. Beðið er eftir tilmælum sóttvarnayfirvalda. 

Enn er óljóst með hvaða hætti skólahald hefst á þessu skólaári á framhaldsskóla- og háskólastigi, en ljóst má vera af fréttum að kapp verður lagt á að skólar taki til starfa að nýju að loknu sumarleyfi. 

Jón Atli segir útlit fyrir að rafræn kennsla verði notuð að minnsta kosti að einhverju leyti. 

„Við erum bara að fara yfir málin og skoða mismunandi útfærslur. Myndin á eftir að skýrast aðeins betur. Við erum þá væntanlega að tala um einhverskonar fjarkennslu og staðnám og huga þá sérstaklega að nýnemum eftir því sem kostur er,“ segir Jón. 

„Þó að við séum kannski með 200 manna stofu eru ekkert svo margir sem komast með tveggja metra reglunni. Þetta er flókið verkefni.“

Jón Atli segist ekki tilbúinn að svara því hvernig yrði komið til móts við nemendur sem ekki treysta sér til að mæta í skólann fari svo að kennsla geti annars farið fram með venjulegum hætti.

Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, tekur í svipaðan steng. Beðið sé eftir nánari tilmælum stjórnvalda og allar sviðsmyndir skoðaðar. 

„Við þurfum bara að skipuleggja okkur í samræmi við þær reglur sem eru í gildi í samfélaginu, það er ennþá smá óvissa. Þetta kemur bara í ljós, við erum ennþá bara á þeim stað að vera að hefja skipulag,“ segir Þorsteinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina