„Ástandið er hreint út sagt skelfilegt“

AFP

Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastýra Rauða krossins á Íslandi, segir ástandið í Líbanon hræðilegt. Rauði krossinn hefur hafið neyðarsöfnun í kjölfar hamfarasprengingar í höfuðborginni Beirút á þriðjudag. 

„Það er ekki nóg að nota orðið slæmt heldur er það skelfilegt,“ segir Kristín um ástandið í Líbanon í samtali við mbl.is.

„Við erum mjög þakklát fyrir það hvað almenningur hefur brugðist vel við. Þetta hefur greinilega áhrif á fólk að horfa upp á þessar hræðilegu myndir og það ástand sem er í Beirút,“ segir Kristín um neyðarsöfnun Rauða krossins hér á landi. 

„Ástandið er hreint út sagt skelfilegt í Líbanon. Það var náttúrulega hrikalegt ástand fyrir, fjármálakreppa, mikil verðbólga, gjaldmiðillinn fallinn og stór hluti íbúa er mjög berskjaldaður fyrir og býr við mjög bág kjör,“ segir Kristín. 

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins. Ljósmynd/Lögreglan

Rauði krossinn um heim allan, þar á meðal hér á landi, safnar nú fyrir neyðaraðstoð Rauða krossins í Líbanon. Hún segir Rauða krossinn í Líbanon eiga sér langa og merkilega sögu og njóta mikils traust íbúa. 

„Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Líbanon hefur unnið gríðarlegt starf alveg síðan í borgarastyrjöldinni og sama hvaða trúarhópi þeir tilheyra þá treysta Líbanar Rauða krossinum. Þetta eru auðvitað hlutlaus samtök og ekki tengd stjórnvöldum og í borgarastyrjöldinni var lögð áhersla á að múslímskir sjálfboðaliðar á sjúkrabílum Rauða krossins færu inn á svæði kristinna og sinntu særðum kristnum og svo öfugt, kristnir sjálfboðaliðar sinntu múslimum,“ segir Kristín. 

Flest flóttafólk miðað við höfðatölu 

„Hjálparstarf Rauða krossins á sér langa sögu í Líbanon og það hefur alltaf verið lögð áhersla á að vinna þvert á trúarbrögð og þetta gagnkvæma traust gerir það að verkum að Rauði krossinn í Líbanon er í framvarðasveit þeirra sem sinna þessum verkefnum, þeir reka alla sjúkrabíla og halda úti heilsugæslum um landið allt og þeir fjármunir sem safnast núna fara í það að styrja þá innviði,“ segir Kristín. 

Kristín segir verkefnin í Líbanon mörg. 

„Það er verið að safna blóði, ofan í COVID-19 er verið að reyna að ná utan um heilbrigðisþjónustuna og við vitum að það þarf að klæða, fæða og hýsa fjölda fólks,“ segir Kristín, en talið er að um 300.000 íbúar Beirút hafi misst heimili sín í sprengingunni. 

Þá segir Kristín að mikill fjöldi flóttafólks í Líbanon hafi áhrif á samfélagið. 

„Það býr þarna gríðarlegur fjöldi flóttafólks frá Sýrlandi og Líbanon er það land sem hýsir hæsta hlutfall flóttafólks miðað við höfðatölu í heiminum öllum. Það eru 650.000 palestínskir flóttamenn sem búa þar í flóttamannabúðum og hafa gert í tugir ára og síðan eru 1.5 milljón flóttamenn frá Sýrlandi. Það er eins og það væru hér á Íslandi yfir 100.000 flóttamenn. Það hefur auðvitað haft mjög mikil áhrif á Líbanon í fjölda ára,“ segir Kristín. 

Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins um 2900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900.

Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649.

mbl.is