Vonbrigði að standa í þessum sporum

Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi.
Þórólfur Guðnason á upplýsingafundi. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að það væri til alvarlegrar skoðunar að herða samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins enn frekar á næstu dögum. Ákvörðun hvað það varðar verður tekin um helgina eða eftir helgi.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna en eins og áður hefur komið fram greindust 17 kórónuveirusmit innanlands síðasta sólarhringinn, það mesta í „seinni bylgju“ veirunnar.

Þórólfur sagði að ef aðgerðir yrðu hertar hefði hann fulla trú á því að þær takmarkanir myndu standa skemur en þær gerðu á vormánuðum.

Sóttvarnalæknir ítrekaði að það þyrfti að skerpa á smitvörnum og fólk þyrfti að virða tveggja metra regluna og aðrar þær reglur sem eru í gildi.

Hann benti á að dæmi sé um að fólk fari ekki eftir reglum, fari jafnvel veikt í vinnu og skilji eftir sig slóð veikinda. 

„Það eru vonbrigði að standa í þessum sporum en við getum horft til reynslunnar frá því í vor,“ sagði Þórólfur. Þá hafi aðgerðir skilað árangri og engin ástæða sé til þess en að við getum náð böndum á faraldrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert