Ferðamenn ekki vandamálið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. mbl.is/Arnþór

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra vísar gagnrýni hagfræðinganna Gylfa Zoëga og Þórólfs Matthíassonar á ákvarðanir stjórnvalda á bug. Hún segir málflutning hagfræðinganna um að ákvörðun um að hleypa ferðamönnum inn í landið án sóttkvíar hafi valdið nýrri bylgju faraldursins ekki eiga við rök að styðjast.

„Hagfræðingunum ætti að vera í fersku minni hvað Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði um erlenda ferðamenn við upphaf faraldursins. Hann sagði að þeim fylgdi fremur lítil áhætta. Enda var þeim framan af hleypt óhindrað inn í landið á sama tíma og Íslendingar á heimleið þurftu að fara í sóttkví,“ skrifar Þórdís Kolbrún í sunnudagsblað Morgunblaðsins í dag.

„Ástæðan fyrir þessum mismunandi kröfum var einfaldlega sú að samkvæmt sóttvarnafræðunum fylgir töluverð áhætta fólki sem býr hér, á meðan fremur lítil áhætta fylgir erlendum ferðamönnum. Þegar þetta er skrifað hafa á landamærunum ekki greinst nema 32 virk smit í meira en 75 þúsund sýnum. Inni í þeirri tölu eru Íslendingar (og fólk búsett á Íslandi) á heimleið. Enginn sem fylgst hefur með upplýsingafundum þríeykisins – ekki síst í gær föstudag – þarf að velkjast í vafa um hvað þau telja að ráði úrslitum í baráttunni við faraldurinn: það er okkar eigin hegðun,“ skrifar Þórdís.

Sannleikurinn er sá að það er óvitað (og verður líklega aldrei vitað með vissu) með hvaða hætti sá stofn veirunnar barst inn í landið sem er grunnurinn að þeirri næstum því 100 manna hópsýkingu sem blossaði hér upp í júlí og breiðir enn úr sér. Áþekk raðgreiningarmynstur hafa fundist í Belgíu og Austur-Evrópu en alls óljóst er hvort hún hafi komið inn í landið með ferðamanni eða Íslendingi.

Stefndu mikilvægum almannahagsmunum í hættu með opnun

Þórólfur Matthíasson skrifaði grein á Kjarnann þar sem hann sagði að rýmkun á samskiptatakmörkunum og skimunarskyldu gæti reynst Íslendingum kostnaðarsöm, enda þyrfti líklega að grípa aftur til hertra takmarkana. „Ákvarð­anir um beit­ingu sam­skipta­fjarlægðar og sam­komu­tak­mark­ana og skimun á landa­mærum voru, að því er virð­ist, teknar á grund­velli þrýst­ings hags­muna­gæslu­manna og þröngra hags­muna umbjóð­enda þeirra. Ekki á grund­velli hag­ræns upp­gjörs á kostn­aði og ábata,“ skrifaði hann.

Gylfi tók í sama streng í grein í Vísbendingu og sagði sjaldan hafa verið augljósara hve mikil áhrif ein atvinnugrein gæti haft á ákvarðanir stjórnvalda. „Með ákvörð­unum sínum um opnun lands­ins hafa stjórn­völd stefnt mik­il­vægum almanna­gæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efna­hag lands­ins einnig stefnt í hætt­u,“ skrifaði Gylfi.

Gylfi Zoega prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Gylfi Zoega prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Seðlabanki Íslands

„Þekki ekki marga sem ætla að fara hringinn í október“

Þórdís segir í grein sinni að þó að efnahagurinn hafi þolað fyrsta högg veirunnar að vissu leyti, þar sem einkaneysla hafi áfram verið möguleg enda margir enn á uppsagnarfresti, séu líkur á að því að ferðamanna verði enn frekar þörf í vetur en nú. Þá muni margir ekki lengur geta leyft sér sömu neyslu. 

„Í þessari stöðu kemur á óvart að Gylfi Zoëga skuli í grein sinni í Vísbendingu leggja áherslu á að við þurfum ekki erlenda ferðamenn því að staða efnahagsmála sé framar vonum og þannig hafi t.d. merkilega margir keypt gistingu á landsbyggðinni í sumar. Þetta slær mig svolítið eins og að fagna góðu stuði í gleðskap á miðnætti án þess að hugsa út í hausverkinn að morgni. Ég þekki ekki marga sem ætla að fara hringinn í október,“ skrifar Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert