Fjórir handteknir en stolnar byssur ófundnar

Sérsveitin að störfum. Mynd úr safni.
Sérsveitin að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sérsveit ríkislögreglustjóra fór inn á heimili í Bríetartúni á tíunda tímanum í gærkvöldi og handtók fjóra einstaklinga. Erindi sérsveitar var að leita stolinna vopna, sem grunur lék á að kynnu að leynast í íbúðinni. Svo var ekki, en eiturlyf fundust á staðnum og því var fólkið handtekið.

Þetta var gert jafnvel þó að ekki hafi fundist verulegt magn af fíkniefnum. Spurður um umfang fíkniefnafundarins segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn að um smáræði hafi verið að ræða, „aðallega neysluskammta“. Þá hafi einnig verið smávegis af þýfi á staðnum.

Vopnin sem um ræðir eru byssur sem tilkynnt var í vikunni að hefði verið stolið í Reykjavík. Þeirra hefur verið leitað en eru enn ófundnar. 

Jóhann Karl segir að fólkið, tveir karlar og tvær konur, verði yfirheyrt í dag og síðan leyst úr haldi. Þau gistu fangaklefa í nótt, grunuð um vörslu og sölu fíkniefna.

mbl.is