Fleiri starfsmenn Torgs í sóttkví

Skrifstofur Fréttablaðsins og DV eru til húsa við Hafnartorg í …
Skrifstofur Fréttablaðsins og DV eru til húsa við Hafnartorg í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri starfsmenn Torgs ehf., sem gefur meðal annars út Fréttablaðið og DV, hafa verið sendir í sóttkví í kjölfar smits sem kom upp hjá starfsmanni DV fyrir helgi. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.

Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins, staðfestir við mbl.is að ekki hafi fleiri smit greinst hjá starfsfólki en ákveðið hafi verið að fara í þessar ráðstafanir í samráði við smitrakningarteymi almannavarna. Enn er ekki ljóst hversu víðtækar aðgerðirnar eru, en hjá Torgi starfa um 100 manns, þar af 80-90 á skrifstofunni á Hafnartorgi. Jón segir að smitrakningarteymið dragi línuna við þá starfsmenn sem hafi verið á starfsstöðinni á sama tíma og sá sem var smitaður, en það var starfsmaður í hlutastarfi sem var í skamman tíma á skrifstofunni. Þá segir hann að hluti starfsmanna sé í sumarfríi og eðli máls samkvæmt nái sóttkvíin ekki til þeirra.

Á fimmtudaginn var greint frá því að ritstjórn DV hefði farið í sóttkví eftir að smit greindist hjá hlutastarfsmanni á ritstjórninni sem hafði verið á ritstjórnarfundi fyrr í vikunni.

Jóhanna Helga Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Torgs, sagði við mbl.is þá að 10 starfsmenn hefðu verið sendir heim. Ekki hefði þótt þörf á að senda fleiri starfsmenn í sóttkví að svo stöddu.

Tekið er fram að ekki sé gert ráð fyrir að ráðstafanirnar hafi áhrif á útgáfu Fréttablaðsins eða DV.

mbl.is