Líkamsárás og rán í Skeifunni

mbl.is/Kristinn Magnússon

Klukkan tuttugu mínútur yfir miðnætti í nótt barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um líkamsárás og rán í Skeifunni. Sjúkrabifreið fór á vettvang vegna ungs manns með áverka í andliti. Árásaraðilar eru sagðir vera þrír og hafa farið strax af vettvangi. Mennirnir höfðu rænt síma og greiðslukorti þolandans. Hann var fluttur til aðhlynningar á bráðadeild en ekki er vitað nánar um áverka hans. Málið er í rannsókn, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þá voru fjögur handtekin í fjölbýlishúsi í hverfi 105, tveir karlmenn og tvær konur. Þau eru grunuð um vörslu og sölu fíkniefna og voru öll vistuð fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu. Handtakan fór fram á tíunda tímanum í gærkvöld. 

Klukkan 19:38 í gærkvöldi var tilkynnt um tónlistarhávaða við Ingólfstorg. Afskipti voru höfð af manni á reiðhjóli með stórt hátalarabox. Maðurinn var í annarlegu ástandi og fór að berja rúður á veitingastað eftir að lögregla hafði haft af honum afskipti. Maðurinn er einnig grunaður um hótanir og var hann handtekinn sökum ástands og vistaður í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert