Stefnir allt í góða berjasprettu

Sveinn bindur miklar vonir við uppsprettuna á Vestfjörðum.
Sveinn bindur miklar vonir við uppsprettuna á Vestfjörðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður, segir allt stefna í góða berjasprettu í ár. Sveinn bindur miklar vonir við uppskeruna á Vestfjörðum og segist sjálfur ætla að hefja berjatínslu eftir næstu viku. 

„Ég er frekar bjartsýnn á berjamóinn þetta árið. Eftir því sem ég heyri frá berjavinum víða um landið má búast við góðu, þó að maður sé nú aldrei viss fyrr en maður er kominn í berjamó með ílátið sitt, sem ég geri ráð fyrir að verði eftir svona rúma viku,“ segir Sveinn. 

Sveinn segir að meðalhitastig í maí skipti miklu máli. „Í stórum dráttum hefur þetta verið gott sumar og vor, ólíkt því sem var í fyrra þegar við fengum góðar hitatölur í maí og sólin skein alveg fram í ágúst, en í staðinn var mikill þurrkur sem olli því að berjasprettan var ekki eins og maður hefði vonað. Núna hefur þetta verið meiri blanda af úrkomu og sólskini og þess vegna er ástæða til að vera bjartsýnn. Sérstaklega hérna á vestanverðu landinu og Vestfjörðum, en ég held að það gæti verið eitthvað seinna en verið hefur á Norðurlandi vegna þess hvað snjóinn tók seint upp,“ segir Sveinn. 

Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður.
Sveinn Rúnar Hauksson, læknir og berjaáhugamaður. mbl.is

„Á Austurlandi hefur líka í stórum dráttum verið fallegt sumar og þar eru mörg dásamleg berjalönd. Mér heyrist að það sé von á góðu þar og það sama má segja um Suðurlandið. Ég minnist þess sem krakki að hafa oftar en einu sinni farið í Haukadalinn og ég hef heyrt að þetta sé snemma á ferðinni þar í ár. Þetta lítur allt saman vel út en maður getur aldrei verið viss, það skiptir líka máli hvernig þessar síðustu vikur sumarsins verða og þá veit maður heldur ekki hvenær næturfrostin binda enda á berjatíðina. En það er tilefni til að fara að líta í kringum sig og hafa ílátin og tínurnar klárar,“ segir Sveinn og minnir á mikilvægi þess að fara vel með berjalyngið ef tínur eru notaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert