Henti fatnaði fyrir hálfa milljón út um glugga

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Kona í annarlegu ástandi var handtekin í miðbæ Reykjavíkur á sjöunda tímanum í gærkvöldi grunuð um þjófnað úr verslun í miðbænum. Þá var konan búin að bera vörur upp á aðra hæð verslunarinnar og henda þar út um glugga fatnaði að verðmæti  400.000 til 500.000 krónur sem hún ætlaði síðan að nálgast. Konan er einnig grunuð um vörslu fíkniefna og var vistuð í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en 90 mál eru skráð í hana frá fimm síðdegis í gær og til klukkan fimm í nótt. Sjö voru vistaðir í fangageymslu á tímabilinu en mikið var um tilkynningar um hávaða frá heimilum. 

Flestar tilkynningarnar sem skráðar eru í dagbókina tengjast áfengis- eða fíkniefnaneyslu. Þannig var ölvaður maður handtekinn í byggingu á einkalóð í hverfi 105. Maðurinn vildi ekki segja til nafns og yfirgefa svæðið.  Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Sömuleiðis var ökumanni í Hafnarfirði sem sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu veitt eftirför. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn var sviptur ökuréttindum en hann reyndi að hlaupa af vettvangi þegar lögregla náði loks að stöðva hann. 

mbl.is