Lögreglan með eftirlit í verslunum

Lögreglan á Suðurnesjum var með eftirlit í verslunum í dag …
Lögreglan á Suðurnesjum var með eftirlit í verslunum í dag til að athuga með sóttvarnir og fjöldatakmarkanir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurnesjum hefur í dag haft eftirlit með sóttvörnum í matvöruverslunum í umdæminu og athugað hvort allt sé eins og það eigi að vera. Í færslu á facebooksíðu lögreglunnar segir að því miður hafi sumar verslanir ekki staðið sig með sóttvarnir og fjöldatakmarkanir. Var þá rætt við verslunarstjóra og starfsmenn og þeim gert að bæta úr sínum málum.

Lögreglan tekur þó fram að aðrir hafi verið með allt upp á tíu. Verður eftirlitinu haldið áfram í vikunni, en fyrr í dag var greint frá því að ástand á fjölmörgum veitinga- og skemmtistöðum í gær hefði ekki verið til fyrirmyndar. Þannig sagði Ásgeir Þór Ásgeirs­son, yf­ir­lög­regluþjónn lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu, að lögreglumenn hefðu ekki treyst sér inn á suma skemmtistaði vegna mannmergðar. Væri lögreglan nú nauðbeygð til að breyta verklagi sínu og herða aðgerðir. Þá myndi lögreglan frá og með deginum í dag beita þá staði sem ekki virtu sótt­varn­a­regl­ur sekt­ar­heim­ild­um og ef brotið væri metið al­var­legt yrðu staðir rýmd­ir og þeim lokað tíma­bundið.

mbl.is