Sumir staðir „í bullinu“

Ástandið var misgott á veitinga-og skemmtistöðum miðborgarinnar í gær.
Ástandið var misgott á veitinga-og skemmtistöðum miðborgarinnar í gær. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir lögregluna ekki hafa annan kost en að byrja að beita rekstraraðila sem ekki virða sóttvarnareglur viðurlögum. 

Í gærdag og fram á kvöld fór lögregla inn á 24 veitinga- og skemmtistaði til að fylgja eftir sóttvarnareglum. Af þessum 24 stöðum voru 15 sem ekki framfylgdu sóttvarnareglum þannig að viðunandi væri. 

Sumir virðast hleypa inn endalaust

Jóhann Karl segir að ástandið hafi verið mismunandi eftir stöðum. 

„Við fórum á fullt af stöðum og margir þeirra voru bara í bullinu þannig séð. Það virða það allir að það megi ekki vera með fleiri en hundrað, en þeir virðast sumir bara hleypa inn endalaust og varpa ábyrgðinni yfir á fólkið að virða tveggja metra regluna eða ekki,“ segir Jóhann. 

Jóhann segir fátt annað í stöðunni en að grípa til aðgerða og beita þá staði sem ekki framfylgja reglum viðurlögum. 

„Við lýstum því yfir í byrjun vikunnar að við ætluðum ekki að fara í neinar aðgerðir en það virðist ekki ætla að duga svo við neyðumst til að grípa til einhverra aðgerða og það verður annaðhvort í því formi að sekta eða jafnvel loka tímabundið, vísa öllum út og loka stöðum sem hægt er svo að opna aftur daginn eftir,“ segir Jóhann og bætir við að það hafi ekki einungis verið skemmtistaðir og barir sem ekki fylgdu reglum heldur einnig veitingahús. 

„Á börum og knæpum eru kannski ekki borð fyrir alla svo menn standa bara, en það eru allmargir veitingastaðir sem hafa ekkert fækkað borðum. Það ætti að vera auðveldast þar og sumir hafa vissulega gert það en alls ekki allir.“

Vildu ekki fara inn á suma staðina vegna smithættu

Þá segir Jóhann að sums staðar hafi lögreglumenn ekki viljað fara inn á staðina vegna smithættu. 

„Það er óþarfi fyrir okkur að fara að troða okkur inn til að tala við eigendur svo við fengum þá bara út. Það er óþarfi fyrir okkur að vera að setja okkur í óþarfa smithættu, hún er nú næg samt.“

Jóhann segir að lögreglan muni áfram fylgjast með veitinga- og skemmtistöðum í vikunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert