16 ökumenn teknir fyrir hraðakstur

Sá sem hraðast ók var á 159 kílómetra hraða.
Sá sem hraðast ók var á 159 kílómetra hraða. mbl.is/Árni Sæberg

Sextán ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum í nýliðinni viku. 

Fram kemur í tilkynningu lögreglu að sá sem hraðast ók hafi verið á 159 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þá var einn ökumaður stöðvaður við akstur án ökuréttinda og annar ávíttur fyrri að spóla á tjaldsvæði. 

Lögreglan á Vestfjörðum fór í eftirlit á veitinga- og skemmtistaði á norðanverðum Vestfjörðum um helgina til að athuga hvort farið væri eftir sóttvarnareglum. Engar athugasemdir þurfti að gera af hálfu lögreglunnar. Lögreglan þurfti þó að hafa afskipti af hópi fólks vegna samkvæmishávaða frá íbúðarhúsnæði á Ísafirði aðfaranótt sunnudags. 

mbl.is