Ákærðir fyrir stórtæka amfetamínframleiðslu

Mennirnir tveir eru ákærðir fyrir framleiðslu og vörlsu á 11,2 …
Mennirnir tveir eru ákærðir fyrir framleiðslu og vörlsu á 11,2 kg af amfetamíni mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Tveir karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir framleiðslu og hafa haft í fórum sínum 11,2 kg af amfetamíni. Telst það sem stórfellt fíkniefnalagabrot, en tæplega 4 kg af efninu var með 20% styrkleika og 7,2 kg með 6-9,2% styrkleika.

Í ákæru málsins er einnig farið fram á upptöku á fjölda tækja og áhalda sem notuð voru við framleiðsluna. Eru það meðal annars balar, hrærur og mælikönnur. Einnig öndunargrímur,  lofttæmingarpokar, stíflueyðir, ísóprópanól-kemí og vökvapressa.Þá voru einnig gerðir upptækir nokkrir farsímar, reikningar, stílabækur og öxi sem fundust í íbúðinni þar sem framleiðslan fór fram.

Einnig fannst 761 þúsund krónur í vörslu annars mannsins sem er ákærður og er farið fram á að þeir fjármunir verði gerðir upptækir.

Upphaflega voru þrír menn handteknir í tengslum við málið. Gaf lögreglan upp við það tækifæri að talið væri  að söluvirði efnanna væri um 70 milljónir.

mbl.is