Búi sig undir þann 200. á 100. fundi

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Lögreglan

Hundraðasti upplýsingafundur almannavarna vegna kórónuveirufaraldursins fór fram í dag og aðspurður sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að við skyldum búa okkur undir að fundirnir yrðu 200.

Í lokaorðum sínum á fundinum sagði Víðir áhyggjuefni að ungt fólk væri að sýkjast og að fyrir lægi að það gæti sýkst alvarlega, en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á fundinum að einn á tvítugsaldri hefði verið lagður inn á Landspítala vegna veikinda sinna í gær.

Þá minnti Víðir á mikilvægi einstaklingsbundinna sýkingavarna og að fólk sem fyndi fyrir einkennum héldi sig heima, ráðfærði sig við heilbrigðisstarfsfólk varðandi sýnatöku og einangraði sig þar til niðurstaða lægi fyrir.

Við værum enn að læra á faraldurinn og því væri gagnrýnin umræða mjög mikilvæg.

mbl.is