Forvarnir langbesta meðferðin

Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans.
Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar Land­spít­al­ans. Ljósmynd/Lögreglan

Sértæk meðferð fyrir þá sem veikjast alvarlega af COVID-19 og víðáttumikil þekking á framvindu sjúkdómsins eru meðal þess sem áunnist hefur á því hálfa ári sem liðið er síðan kórónuveiran fór að láta á sér kræla á Íslandi.

Langbesta meðferðin við sjúkdómnum sem SARS-CoV-2 veldur eru þó forvarnir.

Þetta sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeildar Landspítalans, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Már sagði að stærstur hluti þeirra sem smituðust af kórónuveirunni væri einkennalitlir eða -lausir en að 10-15% glímdu við alvarleg veikindi. Helstu áhættuþættir sem horft væri til í því samhengi væri aldur, auk veikinda eins og sykursýki, offita og ónæmisbæling.

Rannsóknir undanfarna mánuði hafi leitt í ljós að a.m.k. tvö lyf hafi sértæka verkun á kórónuveiruna, annars vegar japanska lyfið favipiravir og hins vegar kanadísk/ameríska lyfið remdesivir, sem einkum væri notað í meðferð fyrir alvarlega veika á meðan favipiravir væri notað fyrir minna veika. Bæði þessi lyf hefðu sérhæfða miðla sem trufli kjarnsýruefnaskipti veirunnar og hafi verið og séu notuð á Íslandi í núverandi bylgju með árangri.

Hýdroxíklórókín ekki vænlegt til árangurs

Þá hafi líftæknilyf og sterar verið notaðir, og að sýnt hafi verið fram á að sterar sérstaklega séu gagnlegir, sérstaklega fyrir alvarlega veika og þarfnist jafnvel öndunaraðstoðar. Þá þurfi almennt að huga að mörgu varðandi alvarlega veikt fólk og beita hliðarmeðferð.

Sagði Már að lyfið hýdroxíklórókín, sem hafi verið mikið í umræðunni í fyrri bylgju faraldursins, hafi nánast verið flautað af með rannsóknum snemma í sumar. Því sé ekki beitt í meðferð hérlendis lengur og þyki ekki vænlegt til árangurs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert