Lærði í mánuð en prófinu frestað

Smit sem kom upp hjá starfsmanni Samgöngustofu síðastliðinn föstudag mun …
Smit sem kom upp hjá starfsmanni Samgöngustofu síðastliðinn föstudag mun hafa áhrif á próftöku fjölmargra flugnema. mbl.is/​Hari

Smit sem kom upp hjá starfsmanni Samgöngustofu síðastliðinn föstudag mun hafa áhrif á próftöku fjölmargra flugnema. Prófum sem áttu að fara fram 10.-14. ágúst hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Flugnemi segir vonbrigðin mikil þó viðbrögð Samgöngustofu séu skiljanleg.

Í samtali við mbl.is segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, að ekki sé búið að ákveða hvenær prófin munu fara fram. „Við munum auðvitað tilkynna okkar nemendum það eins fljótt og auðið er.“

Hjalti Jóhannsson, flugnemi í við flugakademíu Keilis, segir það mikil vonbrigði að fá ekki að taka þau skriflegu próf sem hefjast áttu í dag hjá Samgöngustofu. „Það hefði verið gaman að klára þarna fyrir jól en nú er ekkert víst hvort það náist.“ Er þetta í annað skipti sem Hjalti og samnemendur hans missa af prófasetu hjá Samgöngustofu.

„Mjög leiðinlegt en algjörlega eitthvað sem þurfti að gera“

Í apríl var prófum Samgöngustofu frestað vegna samkomubanns en þá var kórónuveirufaraldurinn í hámarki hér á landi. Hjalti segist hafa fullan skilning á viðbrögðum Samgöngustofu. „Þetta er mjög leiðinlegt en algjörlega eitthvað sem þurfti að gera. Ég og aðrir nemendur erum búin að sitja inni við heilu dagana við lesturinn, en þessi veira spyr auðvitað ekkert að því.“ Hjalti segist hafa lært í um mánuð fyrir prófsetuna og telur að próf raskist hjá ríflega 50 flugnemum.

Hjalti segist skilja vel viðbrögð Samgöngustofu.
Hjalti segist skilja vel viðbrögð Samgöngustofu. Ljósmynd/Aðsend

Hjalti segist nýta tímann í einkatíma með flugkennara. „Flugtímarnir eru langskemmtilegastir, sem betur fer er ekki búið að fresta þeim,“ segir Hjalti glaður í bragði. Hann er með einkaflugmannsréttindi en bíður þess að fá að þreyta próf til atvinnuflugmannsréttinda.

mbl.is