Lagt til að Ísland fari á rauða listann

Ísland gæti lent á rauðum lista norskra stjórnvalda fyrr en …
Ísland gæti lent á rauðum lista norskra stjórnvalda fyrr en varir. mbl.is/Rósa Braga

Landlæknir Noregs hefur lagt það til við stjórnvöld að Íslandi verði bætt á rauðan lista stjórnvalda, en ferðamenn sem koma frá þeim ríkjum þurfa að sæta tíu daga sóttkví við komuna til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lýðheilsustofnun Noregs (Folkehelseinstituttet, FHI).

Auk Íslands er lagt til að Hollandi, Póllandi, Möltu og Kýpur verði bætt á listann. Ekki er ljóst hvenær stjórnvöld taka ákvörðun um uppfærslu listans.

Ísland er sem stendur á grænum lista stjórnvalda og þurfa farþegar héðan því ekki að fara í sóttkví við komuna til Noregs. Opinber viðmið stjórnvalda þar í landi gera hins vegar ráð fyrir að nýgengi smita (fjöldi nýrra smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa) hjá löndum á græna listanum sé undir 20, en talan hér á landi er rétt tæplega 30.

Aðeins eru nokkrir dagar frá því listinn var síðast uppfærður, en þá sluppu Íslendingar fyrir horn þrátt fyrir að nýgengi mældist 24,3. Espen Nakstad, aðstoðarfor­stjóri FHI, sagði af því tilefni að aðstæður á Íslandi væru sérstakar vegna fólksfæðar. Ekki þyrfti mörg smit hér á landi til að fara yfir mörkin tímabundið, en íslensk stjórnvöld hefðu enn stjórn á ástandinu.

mbl.is