Lokað fyrir heitavatnsleiðslur 18. ágúst

Suðuræð er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu.
Suðuræð er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Veitur

Lokað verður fyrir heitavatnsleiðslur á hluta höfuðborgarsvæðisins frá kl. 02:00 á þriðjudaginn næsta 18. ágúst til klukkan 09:00, miðvikudaginn 19. ágúst. Lokað verður í Hafnarfirði, hluta Garðabæjar, efri byggðum Kópavogs og Norðlingaholti í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.

Verið er að fjölga þeim heimilum sem fá heitt vatn frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum. Minnkar þar með notkun á borholum Veitna í Mosfellsbæ. Aukin notkun á heitu vatni m.a. vegna fjölgunar íbúa og þéttingu byggðar veldur því að álag á jarðhitageyminn sem fæðir borholurnar á lághitasvæðum hefur aukist. Segjast Veitur vera að bregðast við þessu ástandi.

Til þess að hægt sé að ráðast í þessar breytingar verði að stöðva rennsli svokallaðrar suðuræðar og tæma hana algjörlega. Suðuræð er ein aðalflutningsleiðin á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu, líkt og segir í tilkynningu Veitna.

Þau svæði sem lokað verður fyrir.
Þau svæði sem lokað verður fyrir. Kort/Veitur

Gera má ráð fyrir algjöru heitavatnsleysi á fyrrgreindu tímabili á þeim stöðum sem tilgreindir voru hér að ofan.

mbl.is