Menningarnótt í Reykjavík aflýst

Frá Menningarnótt í Reykjavík í fyrra.
Frá Menningarnótt í Reykjavík í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menningarnótt í Reykjavík hefur verið aflýst vegna heimsfaraldurs Covid-19. Þetta var ákveðið á fundi neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar í morgun.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1996 sem Menningarnótt fer ekki fram en hún er  haldin í miðborginni fyrsta laugardag eftir afmæli Reykjavíkurborgar, hinn 18. ágúst. Hefur hátíðin vaxið ár frá ári og verið afar fjölsótt, að því er segir í tilkynningu frá borginni. 

Fyrr í sumar stóð til að dreifa hátíðardagskránni yfir tíu daga tímabil en í ljósi hertra samkomureglna þótti rétt að aflýsa henni. Það er von Reykjavíkurborgar að hún verði enn kraftmeiri á næsta ári, segir ennfremur. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir neyðarstjórn borgarinnar hafa verið einhuga í ákvörðun sinni.

„Við höfðum verið að skoða ólíkar útfærslur á hátíðinni en í ljósi þróunar síðustu daga og vikna töldum við réttast að aflýsa Menningarnótt í ár. Þetta er auðvitað leitt en við verðum öll að sýna ábyrgð og lágmarka hættu á smitum í samfélaginu,“ segir borgarstjóri.

mbl.is