Þrefalt fleiri hafa dvalið í sóttvarnahúsinu

Sóttvarnahúsið við Rauðarárstíg.
Sóttvarnahúsið við Rauðarárstíg.

„Það hafa fleiri verið hjá okkur núna en allt tímabilið síðast,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnahúsanna, í samtali við mbl.is. Rúmlega þrefalt fleiri hafa þurft að dvelja í sóttvarnahúsunum nú en í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins hérlendis. 

Þegar mest lét dvöldu 55 í sóttvarnahúsinu í einu í júlí, en það voru ekki nema um 50 sem dvöldu í sóttvarnahúsinu þegar það var opið í vor, allt í allt. Það sem af er sumri hafa um 180 dvalið í sóttvarnahúsum í Reykjavík og á Akureyri.

Á þessari stundu eru 14 í sóttvarnahúsinu í Reykjavík, þar af fimm í einangrun, og fimm í sóttvarnahúsinu á Akureyri, þar af tveir í einangrun.

Gylfi segir að hvað fjölgun þeirra sem dvalið hafa í sóttvarnahúsinu varðar muni helst um fjölda hælisleitenda sem hingað hafi komið og dvelji í sóttvarnahúsunum fyrst um sinn.

mbl.is