Áhöfnin á TF-SIF greip stórtæka smyglara

Á myndbandinu má sjá þegar spænska lögreglan stöðvar bátinn og …
Á myndbandinu má sjá þegar spænska lögreglan stöðvar bátinn og handtekur skipverja. TF-SIF hafði þá veitt bátnum eftirför í rúma tvo tíma. Skjáskot/Landhelgisgæslan

Spænska lögreglan, Guardia Civil, í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands handtók á dögunum fjóra menn og gerði 936 kíló af hassi upptæk við Gíbraltarsund. Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, hafði verið við landamæraeftirlir á vestanverðu Miðjarðarhafi þegar hún kom auga á hraðbát með torkennilegan varning um borð, að því er segir í tilkynningu frá Gæslunni.

Höfuðstöðvum spænsku lögreglunnar var gert viðvart og fylgdi TF-SIF bátnum eftir inn á Gíbraltarsund í rúmlega tvo tíma þar til spænska lögreglan mætti á hraðbát, handtók fjóra smyglara og gerði efnin upptæk. Myndband af handtökunni má sjá hér að neðan.

Áhöfnin á TF-SIF hefur verið á Spáni frá því í júní og sinnt landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi á vegum Frontex, evrópsku landamærastofnunarinnar. Hefur áhöfnin tekið þátt í 41 verkefni og meðal annars stuðlað að björgun 78 flóttamanna. Áhöfnin er nú lögð af stað til Íslands og er væntanleg til landsins síðar í vikunni.

Um borð í TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Um borð í TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is