Ekki ástæða til harðari aðgerða

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki telja ástæðu til harðari aðgerða á þessari stundu. Þetta kom fram í máli hans á upplýsingafundi almannavarna sem hófst klukkan 14.

Ekkert innanlandssmit greindist í gær en að sögn Þórólfs er enn beðið eftir niðurstöðum skimunar hjá einstaklingi í Vestmannaeyjum.

Einn liggur á Landspítala, á gjörgæsludeild, og þrír hafa verið útskrifaðir. Enginn hefur látist í þessari bylgju faraldursins.

Óvenjumargir farþegar komu til landsins í gær að sögn Þórólfs, sem benti á að alls hefðu tæplega fjörutíu manns greinst með virkt smit á landamærunum frá 15. júní.

Einn að utan geti sett af stað alvarlega hópsýkingu

Tölur um smit undanfarna daga sagði hann gefa góða von „um að við séum mögulega að ná böndum yfir þessa hópsýkingu sem við höfum verið að fást við undanfarið“.

Mikil þekking og reynsla hafi fengist frá því byrjað var að skima á landamærunum. Með skimun þar sé hægt að koma í veg fyrir útbreitt smit í samfélaginu. Nóg sé að einn einstaklingur komi inn með veiruna til að setja af stað alvarlega hópsýkingu.

Ef tölur næstu daga verði jákvæðar megi horfa til þess að slaka á einhverjum takmörkunum.

mbl.is