Ísland á rauða listann

Frá bænum Tasiilaq á Grænlandi.
Frá bænum Tasiilaq á Grænlandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslandi og Færeyjum hefur verið bætt á rauðan lista grænlenskra stjórnvalda. Farþegar frá löndunum tveimur þurfa nú að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins.

Grænlenska landstjórnin greindi frá þessu í dag og sagt er frá í grænlenska blaðinu Sermitsiaq. Sóttkvíin er þó ekki algjör. Fólki er heimilt að fara í matarbúðir og stunda önnur nauðsynleg viðskipti sem ekki er mögulegt að láta aðra gera. Þá er hægt að fara í skimun fimm dögum eftir komuna til landsins og sé niðurstaða hennar neikvæð losnar fólk undan sóttkvínni.

Í fréttatilkynningu frá grænlensku landstjórninni segir að ákvörðunin sé tekin vegna þróunar kórónuveirunnar á Íslandi og í Færeyjum. 114 virk smit eru nú á Íslandi og er nýgengi smita, fjöldi nýrra smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, nú 29,4.

Í Færeyjum eru aftur á móti 99 virk smit og nýgengið 205,4.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert