Mun sveigjanlegra með einum metra

„Ef þetta verður einn meter þá getum við notað fleiri kennslustofur og svigrúmið verður talsvert meira,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans, um hugmyndir sóttvarnalæknis um að eins meters regla muni gilda í framhalds- og háskólum. Það muni verulega um þetta aukna svigrúm. 

Í myndskeiðinu er rætt við Hjalta Jón um skólastarfið sem hefst á næstu dögum og þar er nú verið að birgja skólann upp af sótthreinsivökva og einnota hönskum til að nýta í starfinu.

Um 600 nemendur eru í skólanum, í starfsliðinu eru um 60 manns og fer starfsemin fram í fjórum húsum sem býður upp á ýmsa möguleika til að hólfa fólk af. Fram til þessa hafði verið horft til þess að einn árgangur myndi mæta í skólann og þá hugsanlega í viku í senn á meðan aðrir stunduðu fjarnám. Nú segir Hjalti Jón að myndin horfi betur við sérstaklega þar sem fleiri stofur verði nýttar í starfinu.

mbl.is