Opna íslenskan veitingastað í Dortmund

Íslendingurinn opnar í lok ágúst.
Íslendingurinn opnar í lok ágúst. Ljósmynd/Aðsend

„Ég þekki nú Ísland og það sem ég sakna mest er góður fiskur,“ segir Magnús M. Hauksson, framkvæmdastjóri veitingastaðarins og fiskbúðarinnar Íslendingsins (þ. Der Isländer), í Dortmund.

Á Íslendingnum verður boðið upp á fisk og franskar, plokkfisk, fiskivefjur, fiskiborgara, laxasalat og ferskan íslenskan fisk, sem hægt er að taka með og matreiða heima. Marineraðir réttir verða einnig á boðstólnum en þar má nefna þorsk í basil-lime dressingu, lax í teryaki-sósu með sesam-fræjum yfir, svo fátt eitt sé nefnt.

„Það eru svo margar frábærar fiskbúðir á Íslandi en við sáum vöntun á þessu hérna,“ segir hann.

Íslenskar vörur verða í hávegum hafðar; Einstök-bjór, laxa-salt og lýsi verða á boðstólnum.

„Við bjóðum upp á þetta til að standa undir nafni. Við erum mjög spenntir að sjá hvernig Þjóðverjinn mun taka við íslenskri vöru. Það er gaman að segja frá því að við munum flytja íslensku kokteilsósuna til Þýskalands - við erum örugglega fyrstir til að gera það,“ segir hann.

Unnið er nú hörðum höndum að opnun staðarins.
Unnið er nú hörðum höndum að opnun staðarins. Ljósmynd/Aðsend

Bíða spenntir

Magnús ólst upp í Þýskalandi og flutti síðan til Íslands og lærði verkfræði. Nú hefur hann búið í Þýskalandi í 3 ár og stofnaði Íslendinginn ásamt nokkrum fjárfestum.

Það sem maður saknar mest frá Íslandi er mömmumaturinn og góður fiskur, eins og ég hef sagt. Við erum hérna tveir Íslendingar, ég og Kolbeinn Finnsson knattspyrnumaður,“ segir hann. Íslendingar í Þýskalandi hafa þegar sett sig í samband við Magnús og bíða spenntir eftir að staðurinn opni.

„Við opnum á skemmtilegum stað, við vatn, sem hefur sterka tengingu við fiskinn. Þetta er aðsótt svæði og margir staðir hér, steikhús, ísbúðir og salatstaðir, en við erum fyrstir til að koma með fisk,“ segir hann.

Staðurinn opnar í lok ágúst, þrátt fyrir kórónuveirufaraldur, þar sem Þjóðverjar hafa staðið sig ágætlega í baráttunni gegn veirunni.

„Það hefur verið grímuskylda síðan í mars og Þjóðverjinn hefur staðið sig ótrúlega vel. Auðvitað fylgjum við öllum reglum,“ segir hann en því til marks þarf hver kúnni að skilja eftir nafn og símanúmer svo hægt sé að ná í hann, til að auðvelda smitrakningu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »