Sóttvarnalæknir afhenti minnisblað

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi vegna …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundi vegna veirunnar í apríl. mbl.is/Eggert

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur afhent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra nýtt minnisblað sem varðar sóttvarnaráðstafanir vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Þetta staðfestir heilbrigðisráðuneytið eftir fyrirspurn mbl.is.

Gera má ráð fyrir að minnisblað sóttvarnalæknis sé til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar, sem hófst í ráðherrabústaðnum klukkan 9.30 í morgun.

Nokkrar ólíkar tillögur

Fram kom á blaðamannafundi almannavarna í gær að Þórólfur myndi leggja nokkrar ólíkar tillögur fyrir stjórnvöld í minnisblaðinu.

Hingað til hefur hann einfaldlega lagt fram tillögur sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra án beinnar aðkomu stjórnvalda. Staðan nú sé önnur.

„Við erum að fara í aðra vegferð núna. Við ætlum að reyna að lifa með þessari veiru í marga mánuði eða ár og þá þurfa menn að horfa til annarra hluta. Ég tel að mitt hlutverk í því sé að benda á sóttvarnasjónarmið; hvað er líklegt að muni gerast ef við grípum til tiltekinna aðgerða umfram aðrar,“ sagði Þórólfur.

Það sé hins vegar ekki hans að meta hagsmuni einnar atvinnugreinar eða starfsemi umfram annarrar. Það sé í verkahring stjórnvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert