Furða sig á aðferðum Samherja

Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélagsins.
Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélagsins. Haraldur Jónasson/Hari

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur sent frá sér tilkynningu um að á fundi stjórnar félagsins nú á hádegi hafi verið samþykkt ályktun, þar sem félagið lýsir furðu sinni yfir hátterni Samherja í garð Helga Seljan, fréttamanns RÚV. Samherji birti í gær myndband þar sem Helgi er sakaður um að hafa falsað gögn sem varðaði starfsemi fyrirtækisins.

Segir í ályktun Blaðamannafélagsins að Samherji ætti að „fagna allri umræðu um fyrirtækið og þeim tækifærum sem það gefur til að útskýra þau sjónarmið sem liggja starfseminni til grundvallar.“ Segir félagið að viðbrögð Samherja við umfjöllun um sig hafi einkennst af lágkúru og að fyrirtækið hafi vegið að trúverðugleika íslenskra fjölmiðla og fjölmiðlamanna.

Í ályktuninni segir enn fremur að það sé ekkert nýtt að fjársterkir einstaklingar og fyrirtæki kveinki sér yfir fjölmiðlaumfjöllun á Íslandi. Stjórn BÍ hvetur að lokum alla blaðamenn til þess að standa saman um grunngildi faglegrar fjölmiðlunar.

Ályktunin í heild sinni er aðgengileg á vef Blaðamannfélags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert