Meira um minni óhöpp í sumar

Meira hefur verið um minni óhöpp á borði Landsbjargar í sumar en búist var við. Þetta segir Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna hjá Landsbjörg.

Jónas segir að sumarið hafi verið að mestu stórslysalaust, og að lítið hafi verið um óhöpp þar sem erlendir ferðamenn eiga í hlut. Þótt erlendir ferðamenn séu töluvert færri en síðustu sumur hafi Íslendingar ferðast innanlands í auknum mæli.

Miklir vatnavextir hafa verið á suð-vestur horni landsins síðustu daga, en Landsbjörg hefur unnið að því að tryggja öryggi á svæðinu.

„Það er óeðlilegt að það séu vatnavextir í svona langan tíma,“ segir Jónas, en rennsli í sumum ám á hálendinu er meira en það hefur verið í nokkur ár.

Landsbjörg hefur verið í góðu sambandi við aðila á svæðinu, og hefur auk þess miðlað upplýsingum til ferðafólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert