Rauði listinn ræddur á fundi ráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Magnus Fröderberg/norden.org

Guðlaugur Þór Þórðarson segir í samtali við mbl.is að Ísland fari af rauðum lista Noregs yfir lönd þar sem hlutfall smitaðra er hátt, ef fram heldur sem horfir í baráttu Íslendinga við kórónuveiruna. Norðmenn séu með ákveðin viðmið sem Ísland reynir að uppfylla og öfugt. Samráð er milli ráðherra landanna.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag, þá mun Ísland, frá og með miðnætti á föstudagskvöld, hljóta rauða stöðu á korti Norðmanna yfir þau lönd í Evrópu, sem stjórnvöld þar í landi mæla ekki með að ferðast sé til. Farþegar sem koma frá Íslandi til Noregs munu þurfa að fara í sóttkví. Ísland fer þá á lista með Hollandi, Póllandi, Kýpur, Möltu og Færeyjum.

„Hlutirnir eru á góðri leið hjá okkur og ef fram heldur sem horfir, þá munum við færast af þessum lista,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson í samtali við mbl.is. Guðlaugur var í sambandi við kollega sinn í ríkisstjórn Noregs í dag og sagði hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa rætt við Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs í dag. Samræðurnar hafi verið jákvæðar og mikið samráð sé milli landanna.

Guðlaugur segir samvinnu Noregs og Íslands góða. „Þeir fylgjast grannt með stöðunni hjá okkur og við sömuleiðis hjá þeim. Vonandi höldum við bara áfram á réttri braut í baráttunni við þessa veiru hér innanlands og þá endurskoða norsk stjórnvöld þessa ákvörðun sína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert