Stefna Lilju þingfest 1. september

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Hari

Stefna Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. september. Þetta kom fram í tíufréttum sjónvarps.

Lilja höfðar málið til að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála sem komst að þeirri niðurstöðu í sumar að Lilja hefði brotið jafnréttislög er hún skipaði Pál Magnússon, flokksbróður sinn, í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Hæfnisnefnd, sem Lilja hafði skipað, komst að þeirri niðurstöðu að Páll væri hæfastur til að gegna starfinu en nefndin komst að þeirri niðurstöðu að hæfi Hafdísar, sem var meðal umsækjenda, hefði verið vanmetið.

Samkvæmt núgildandi lögum hafa þau sem ekki sætta sig við niðurstöðu kærunefndarinnar þann eina kost að stefna gagnaðila sínum fyrir dómstólum. Eftir að málið kom upp lagði forsætisráðherra hins vegar fram frumvarp þess efnis að stefna þurfi að höfða mál bæði gegn gagnaðila og kærunefndinni sjálfri. 

Í viðtali í sjónvarpsfréttum sagðist Lilja hafa valið að stefna eftir að hafa fengið lögfræðilega ráðgjöf þess efnis en hún gæti ekki tjáð sig ítarlega um málið þar sem því hefði verið vísað til dómstóla. Hún vildi ekki svara því hvort ákvörðun hennar nyti stuðnings innan ríkisstjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina