Vera hugsanlega ábyrg fyrir hljóðinu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hugsanlegt er að lágtíðnihljóð sem einhverjir íbúar Akureyrar hafa orðið varir við undanfarið, og það verið þeim til ama, komi úr mastri skútunnar Veru sem legið hefur við Pollinn.

Þorkell Pálsson, einn forsvarsmanna skútunnar, segir í samtali við mbl.is að honum þyki það þó nokkuð ólíklegt. Það sé þó þess virði að setja seglið aftur í mastrið til að athuga hvort hljóðið fræga hætti.

„Það er fræðilegur möguleiki,“ segir Þorkell í samtali við mbl.is, en að honum skiljist þó að Akureyringar hafi einhverjir heyrt þetta hljóð allt aftur til ársins 2014.

„Eitt af seglunum á Veru rúllast inn í mastrið, en við tókum þetta segl niður og það hefur ekki verið í mastrinu í einhverjar tvær vikur. Þegar það er ekki í mastrinu, og vindurinn blæs akkúrat í ákveðna stefnu inn í mastrið heyrist smá hljóð, en það er ekkert líkt því sem lýst hefur verið,“ segir Þorkell, en fyrst var rætt við hann á RÚV.

„Seglið er komið í núna, við vorum að bíða eftir logni. Ég er alveg sannfærður um að þetta blísturshljóð heyrist ekki í mastrinu þegar seglið er í því, en hvort þetta er hið fræga hljóð veit ég ekkert um.“

Akureyrarbær hefur sett af stað skoðanakönnun á Facebook-síðu sinni þar sem íbúar eru spurðir hvort þeir hafi orðið varir við hljóðið, og kveðst um þriðjungur íbúa hafa heyrt það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert