Aldrei fleiri nýnemar hafið nám í HR

Rektor HR segir að það sé fagnaðarefni að unnt sé …
Rektor HR segir að það sé fagnaðarefni að unnt sé að hefja skólaárið með eins metra fjarlægðartakmörkunum í stað tveggja. Ljósmynd/Aðsend

Í haust hefja um 1.700 nýnemar nám við Háskólann í Reykjavík, í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi. Nemendum í HR hefur farið fjölgandi ár frá ári en aldrei hafa fleiri nýnemar hafið nám í háskólanum og eru þeir tæplega 20% fleiri en í fyrra. Einnig munu um 100 skiptinemar stunda nám við háskólann á haustönn. Nýnemar í grunnnámi verða boðnir velkomnir á nýnemadögum háskólans í dag og á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

„Háskóli er samfélag og samskipti meðal nemenda og við kennara eru mikilvægur þáttur í góðri menntun. Við höfum því unnið hörðum höndum að því að nemendur geti sem allra mest stundað nám sitt í háskólanum og nýtt aðstöðuna þar, innan þeirra marka sem sóttvarnarreglur setja okkur á hverjum tíma. Í haust verða hefðbundnar stundaskrár kjarni skipulags kennslunnar, en fyrirlestrar verða sendir út í streymi eða teknir upp og gerðir aðgengilegir á netinu, til að tryggja aðgengi allra að kennslu, óháð takmörkunum. Lögð verður sérstök áhersla á að nemendur geti mætt í háskólann í verklega tíma, dæmatíma, umræðutíma og aðra tíma sem byggja á viðveru og samstarfi,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, um skipulag skólastarfsins. 

Geta sinnt fleiri nemendum á sama tíma

Hann tekur einnig fram, að það sé fagnaðarefni að unnt sé að hefja skólaárið með eins metra fjarlægðartakmörkunum í stað tveggja. „Það gerir okkur kleift að sinna fleiri nemendum á staðnum á sama tíma og allt háskólastarfið verður fyrir vikið eðlilegra.“

Þá kemur fram í tilkynningu skólans, að á nýnemadögum hitti nýnemar kennara sína og samnemendur og fái kynningu á aðstöðunni og  þjónustunni í HR, félagslífinu og ýmsu því sem skipti máli varðandi það að hefja nám í háskóla.

Vegna sóttvarnartakmarkana var nýnemum skipt upp í hópa og dagskráin stytt frá hefðbundnum nýnemadögum. Í byrjun annar mun háskólinn svo bjóða upp á stutta fyrirlestra á netinu sérstaklega ætlaða nýnemum, um ýmislegt það sem þarf að hafa í huga við upphaf háskólastarfs á tímum covid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert