„Ansi stíf og hviðótt“

Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir hvassa vindstrengi á norðanverðu Snæfellsnesi og um landið norðanvert í dag. Staðbundið geta hviður náð 35 m/s. Slíkur vindur getur verið varasamur, sér í lagi fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Einnig má búast við talsverðu sandfoki á hálendinu norðan jökla.

Talsverð rigning verður á vestanverðu landinu í nótt og á morgun, en dregur úr vætunni seint annað kvöld. Áfram má búast við vatnavöxtum.

Gul viðvörun er í gildi við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, á Norðurlandi vestra og Ströndum, Norðurlandi eystra og Suðausturlandi.

„Í dag er spáð sunnan- og suðvestanátt og verður hún víða ansi stíf og hviðótt, einkum um landið norðan- og norðvestanvert. Búist er við talsverðu úrkomumagni á Vesturlandi, en annars rignir með köflum í flestum landshlutum. Hiti víðast á bilinu 10 til 15 stig, en útlit fyrir að lengst af verði þurrt á Austurlandi í bjartviðri og hita að 23 stigum.

Næstu daga er áfram spáð vætu um um vestanvert landið, en þurrt og hlýtt norðaustan til. Um miðja næstu viku er útlit fyrir austanátt með kólnandi veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Sunnan og suðvestan 13-18 m/s, en öllu hægari suðvestan til á landinu og á Austurlandi. Talsverð rigning á vestanverðu landinu, annars rigning með köflum, en styttir upp í kvöld. Hiti yfirleitt 10 til 15 stig, en 15 til 22 stig austanlands.

Á föstudag:
Suðvestan 10-15 norðvestan til og við suðausturströndina, annars 5-10 m/s. Skýjað með köflum suðvestanlands, en annars léttskýjað. Hiti 12 til 18 stig, en 18 til 22 stig austan til á landinu.

Á laugardag:
Suðlæg átt 5-10 og dálítil rigning eða súld en hægari vindur og bjartviðri austan til. Hiti 10 til 19 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á sunnudag:
Fremur hæg breytileg átt og yfirleitt bjart en gengur í suðaustan 5-10 með rigningu suðvestan til síðdegis. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Suðaustlæg átt, skýjað með köflum og dálítil væta vestan til en þurrt og bjart að norðaustanverðu. Hiti víða 13 til 19 stig.

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hægan vind með lítils háttar vætu um vestanvert landið, annars skýjað með köflum en þurrt að mestu. Heldur kólnandi.

Á miðvikudag:
Líkur á austlægri átt. Skýjað með köflum en úrkomulítið og kólnar í veðri.

mbl.is