Kvennaathvarf opnar á Akureyri

Kvennaathvarfið er opnað í samstarfi við Bjarmahlíð.
Kvennaathvarfið er opnað í samstarfi við Bjarmahlíð. Ljóstmynd/Akureyrarbær

Kvennaathvarf verður opnað á Akureyri þann 28. ágúst. Verður því ætlað að þjónusta konur og börn sem geta ekki búið heima hjá sér vegna ofbeldis. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar. 

Það eru Samtök um kvennaathvarf og Bjarmahlíð sem standa að opnun kvennaathvarfsins í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu, Aflið, ráðherra félagsmála og dómsmála.

Þjónustan verður viðbót við starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar Bjarmahlíðar, sem hefur frá því í fyrra sinnt ýmiss konar þjónustu við þolendur ofbeldis á Norðurlandi, einkum með ráðgjöf og viðtölum. 

Um er að ræða tilraunaverkefni til vors, en aðstandendur kvennaathvarfsins telja að allar forsendur séu fyrir rekstri athvarfs af þessu tagi á Norðurlandi og gera ráð fyrir að starfsemin sé komin til að vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert