Leggur áherslu á að fylgja ráðum sóttvarnalæknis

Svandís og Þórólfur ræða við Ölmu Möller landlækni.
Svandís og Þórólfur ræða við Ölmu Möller landlækni. mbl.is/Eggert

Stjórnvöld skoða nú samanburð á þeim leiðum sem fram koma í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

Þetta kemur fram í svari Svandísar við fyrirspurn mbl.is.

Tekur hún fram að í samanburðinum sé tekin hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem helst þurfi að leggja til grundvallar, svo sem „sóttvarnaraðgerðum innanlands, virkni samfélagsins inn á við og út á, við þar með talið skólastarfi og menningarlífi og enn fremur því hvað er framkvæmanlegt í þessum efnum“.

Vísar hún einnig til þess að í minnisblaði Þórólfs komi fram að hann telji áhrifaríkustu leiðina, til að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands, þá að að skima alla farþega á landamærum, krefja þá um sóttkví í 4-6 daga og skima þá svo aftur að þeim tíma liðnum.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur tekið í sama streng.

Faglegt mat sóttvarnalæknis

Alls tilgreindi Þórólfur níu leiðir sem fara mætti fram á veginn. Spurð hvaða tillaga hljómi best segir Svandís eftirfarandi:

„Tillögurnar hafa kosti og galla eins og fram kemur í minnisblaðinu og eru til skoðunar á vettvangi ráðuneytisstjóra. Það er því of snemmt fyrir mig að svara þessari spurningu fyrr en ég hef fengið í hendur mat á kostum, göllum og framkvæmanleika þeirra leiða sem lagðar eru til.

Sem fyrr legg ég áherslu á að fylgja ráðum sóttvarnalæknis og láta faglegt mat hans á því hvaða kostir eru vænlegastir ráða för.“

Svandís hefur fram til þessa samþykkt tillögur Þórólfs.
Svandís hefur fram til þessa samþykkt tillögur Þórólfs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stefnan að fylgja ráðleggingum sérfræðinga

Fram til þessa hefur Svandís samþykkt allar þær tillögur sem borist hafa með minnisblöðum sóttvarnalæknis. Spurð hvort ferlið sé breytt núna, að því leyti að fleiri ráðherrar komi að vinnunni sem virðist um leið taka lengri tíma en áður, segir Svandís að ferlið sé óbreytt.

„Ferlið er það sama og áður og í samræmi við lög um sóttvarnir, þ.e. heilbrigðisráðherra ákveður að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana innanlands, og þá hvaða ráðstafana grípa skuli til,“ segir hún.

„Það hefur verið okkar stefna í ríkisstjórninni að fylgja ráðleggingum okkar sérfræðinga og vísindamanna og láta sjónarmið um líf og heilsu landsmanna ráða för. Ýmis önnur atriði geta haft áhrif á útfærslur aðgerða á landamærum, til dæmis greiningargeta rannsóknarstofa, tiltekin sjónarmið um flugsamgöngur, samskipti við önnur lönd og alþjóðlegar skuldbindingar.

Stýrihópur ráðuneytisstjóra um aðgerðir á landamærum hefur meðal annars það hlutverk að skoða það. Allar ákvarðanir um sóttvarnarráðstafanir innanlands eru þó eftir sem áður í höndum heilbrigðisráðherra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert