Mikill verðmunur á andlitsgrímum

Neytendur eru hvattir til að vera vakandi fyrir misjöfnum gæðum …
Neytendur eru hvattir til að vera vakandi fyrir misjöfnum gæðum á einnota sem og fjölnota andlitsgrímum sem eru á markaði auk þess að vera meðvitaðir um notkun þeirra og meðhöndlun til að þær geri gagn. Myndin er úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað verð á þriggja laga einnota andlitsgrímum í hinum ýmsu verslunum, netverslunum, matvöruverslunum og apótekum svo eitthvað sé nefnt.

Úrval og framboð af andlitsgrímum er mjög misjafnt milli verslana og mikill verðmunur er á slíkum andlitsgrímum. Lægsta stykkjaverðið í könnuninni var að finna í Costco, 56 kr. stk eða 2.809 kr., fyrir pakka með 50 grímum. Hæsta stykkjaverðið var í Eirberg, 298 kr. gríman eða 5.950 kr. fyrir pakka með 20 grímum. Lægsta verðið á andlitsgrímum sem seldar voru í stykkjatali var í Krambúðinni, 49 kr. stk en það hæsta í Lyfju, 209 kr. stk., að því er fram kemur á vef ASÍ. 

„Grímurnar sem voru til skoðunar í könnuninni voru allar þriggja laga og einnota en eru ekki endilega alveg eins þar sem þær koma frá mismunandi framleiðendum. Gæðamunur getur því verið á grímum hjá þeim söluaðilum sem könnunin nær til. Ekki er lagt mat á gæði á þeim grímum sem birtast í könnuninni þar sem einungis þar til bærir sérfræðingar geta skorið úr um hvort gæði gríma sé fullnægjandi,“ segir ASÍ. 

Neytendastofa hefur tekið fjölda gríma úr umferð

Þá bendir ASÍ á, að Neytendastofa sjái um eftirlit með andlitsgrímum og stofnunin haif orðið vör við að gæðum á andlitsgrímum sé í sumum tilfellum ábótavant og töluvert magn af grímum hafi verið tekið úr umferð vegna þess. Þar að auki er talsvert af þeim grímum sem eru til sölu ekki CE vottaðar og þá hafa CE merkingar í sumum tilfellum verið falsaðar og geta neytendur sent Neytendastofu ábendingu ef þeir verða varir við slíkt.

„Þessi verðkönnun gefur innsýn inn í verð og framboð á þriggja laga einnota andlitsgrímum á markaðnum í dag. Verð og framboð á andlitsgrímum breytist þó ört og hvetjum við fólk til að fylgjast vel með, m.a. inn á hópi Verðlagseftirlits ASÍ „Vertu á verði“ en þar geta neytendur skráð niður upplýsingar um verð á andlitsgrímum og fylgst þannig með markaðnum.

Neytendur eru hvattir til að vera vakandi fyrir misjöfnum gæðum á einnota sem og fjölnota andlitsgrímum sem eru á markaði auk þess að vera meðvitaðir um notkun þeirra og meðhöndlun til að þær geri gagn,“ segir á vef ASÍ. 

mbl.is