Reyndu að stinga af á hlaupum

mbl.is/Ófeigur

Síðdegis í gær ætlaði lögreglan að stöðva bifreið í Árbænum en ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Hófst þá eftirför og var bifreiðin stöðvuð skömmu síðar þar sem ökumaður og farþegi hlaupa af vettvangi. 

Ökumaðurinn var handtekinn skömmu síðar grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og fleiri brot.  Ökumaðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Tveir menn voru handteknir þar sem þeir voru að brjótast inn í miðborginni í gærkvöldi og eru þeir báðir vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

17 ára ökumaður var stöðvaður í Austurbænum (hverfi 105) um klukkan 21 í gærkvöldi og kom í ljós að pilturinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Í sama hverfi var annar ökumaður stöðvaður skömmu síðar og reyndist hann vera undir áhrifum fíkniefna og áfengis.

Þrír aðrir ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt á höfuðborgarsvæðinu sem áttu það sammerkt að vera undir áhrifum vímuefna, annaðhvort fíkniefna eða áfengis.

Síðdegis í gær var síðan för bifreiðar stöðvuð í Kópavoginum en ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum og hefur hann ítrekað verið staðinn að akstri þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum.

mbl.is