Sérfræðingur segir hljóðið vegna skútunnar

Sérfræðingur heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segist sannfærður um að dularfulla hljóðið …
Sérfræðingur heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segist sannfærður um að dularfulla hljóðið á Akureyri sé vegna skútu við höfnina. mbl.is/Þorgeir

Sérfræðingur heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segist sannfærður um að dularfullt hljóð, sem íbúar á Akureyri segjast margir hafa orðið varir við undanfarið, stafi af mastri skútunnar Veru, sem liggur við Akureyrarhöfn. Hann sé þó ekki sannfærður um að það útskýri málið til fulls. Sjálfur fór hann tvívegis í eftirlitsferð að skútunni og heyrði hann hljóðið skýrt í bæði skiptin.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarmaður hefur undanfarið leitt umræður á fésbókarsíðu sinni þar sem Akureyringar ræða sín á milli um upplifun sína af hljóðinu. Þorvaldur birti í gær hljóðbrot þar sem dularfulla hljóðið heyrist greinilega. Alfreð Sciöth, sérfræðingur heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, segir málið áhugavert og nokkuð skemmtilegt en leiðinlegt sé að heyra af fólki sem segja ekki svefnfrið fyrir hljóðinu. „Það er vel hægt að hafa gaman af þessu máli en það er alveg grábölvað ef fólk fær ekki nætursvefn.“ sagði Alfreð við blaðamann mbl.is í dag.


Alfreð sagði í samtali við mbl.is í dag að hann teldi að dularfulla hljóðið á Akureyri megi rekja til skútunnar. „Hvort það sé eina hljóðið sem heyrist ætla ég ekki að staðfesta.“ Hann segir vel koma til greina að eitthvað annað orsaki hljóðið og að „hávaðagjafarnir“ séu jafnvel fleiri en einn. Óformleg vettvangsrannsókn Alfreðs leiddi í ljós að við ákveðin veðurskilyrði hafi vindnauður sem fór um mastur skútunnar búið til það sem margir íbúar eru farnir að kalla draugahljóð. Hann segir heilbrigðiseftirlitið hafa fengið mikið af ábendingum um málið og að stofnunin kalli eftir fleiri ábendingum.

Skútan verður færð

Alfreð fór þess á leit við skipstjóra skútunnar að haga mastri skútunnar þannig að ekki blési í gegn með þeim hætti sem áður gerði. Tilraunir skipstjórans hafi hins vegar ekki borið árangur. Skútan verður færð á næstunni svo kanna megi betur hvort hljóðið komi í raun og veru frá skútunni. „Það verður athyglisvert að sjá hvort bæjarbúar taki eftir því að hljóðið hætti eða færist.“

„Ég hugsa að þetta sé ekkert sem tengist göngunum, nei.“ segir Alfreð þegar hann var spurður út í kenningu einhverra bæjarbúa um að hljóðið kæmi vegna vifta í Vaðlaheiðargöngum. Alfreð rifjar síðan upp þann tíma er göngin voru í framkvæmd að oft hafi hljóð heyrst í Akureyrarbæ vegna framkvæmdanna. „Þá heyrðust gjarnan drunur og önnur læti sem bárust yfir pollinn og inn í bæ.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert