Spáir heiðskíru yfir höfuðborgarsvæðinu

Minning um sól. Kannski gefst færi til hvíldar á Klambratúni …
Minning um sól. Kannski gefst færi til hvíldar á Klambratúni á morgun. mbl.is/Eggert

Heiðskíru spáir yfir höfuðborgarsvæðinu allt frá klukkan fimm í fyrramálið og fram á áttunda tímann um kvöldið. Viðbrigðin ættu því að verða nokkur frá þeim skýjahjúp sem heita má að hulið hafi höfuðborgina allt frá ágústbyrjun.

Aðeins höfðu enda mælst rétt rúmlega tólf sól­skins­stund­ir í Reykjavík í byrjun vikunnar, frá því mánuðurinn hófst. Hafa þær aðeins einu sinni áður verið færri fyrstu tíu daga ág­úst­mánaðar, árið 1916.

Spáð er allt að 15 gráðu hita í Reykjavík á morgun. Á sama tíma stefnir í að hitinn fari vel yfir tuttugu gráðurnar á Austurlandi, samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofunnar.

Hlýindunum hefur verið nokkuð misskipt síðustu daga, þar sem fyrir austan hefur fólk getað notið algjörrar veðurblíðu. Þar mældist hæsti hiti ársins á landinu í dag, eða 26,3 gráður í Neskaupstað. Á sama tíma mældist hitinn 26,1 gráða á Seyðisfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert