Stjórnvöld neyðist til aðgerða

Kári Stefánsson hefur trú á því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra …
Kári Stefánsson hefur trú á því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og stjórnvöld séu á sömu skoðun og hann. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að það þarf að setja á það kerfi að við skimum á landamærum, látum fólk fara í sóttkví í fjóra til sex daga og skimum það aftur,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir legg­ur fram níu út­færsl­ur að aðgerðum á landa­mær­um vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins í minn­is­blaði sem hann af­henti Svandísi Svavars­dótt­ur heil­brigðisráðherra í fyrradag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við mbl.is í gær að tíðinda vegna þess væri að vænta um eða eftir helgi.

Í minnisblaðinu kemur fram að áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að kórónuveiran berist til landsins sé það sem Kári telur að eigi að gera; skima alla á landamærunum, krefja fólk um sóttkví í fjóra til sex daga og skima aftur að þeim tíma liðnum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

„Ég held að við neyðumst til að gera það,“ segir Kári og útskýrir málið frekar:

„Ég lagði til á sínum tíma að við skyldum opna landið og skima á landamærum. Það var ekki vegna þess að ég væri sérstaklega að horfa til ferðaþjónustunnar heldur fannst mér eðlilegt að við könnuðum hvort við gætum ekki lifað eðlilegu lífi í þessu landi.

Núverandi kerfi dugi ekki

Kári telur að tími þessarar tilraunar sé liðin. Hún hafi gengið ágætlega en endaleg ályktun hans sé sú að þetta kerfi dugi ekki. Nú sleppa farþegar frá Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi við skimun en aðrir eru skimaðir á landamærum. Þeir sem koma frá öðrum löndum en „þeim öruggu“ og hyggjast dvelja hér í tíu daga eða lengur fara í heimkomusmitgát og aðra sýnatöku eftir fjögurra til sex daga dvöl.

Við erum búin að sjá það að með þetta kerfi til staðar þá blossa upp hópsýkingar sem verða síðan að samfélagssmiti, eins og þetta sem við erum að takast á við núna, og ef það heldur áfram sem horfir, að við gerum ekkert í þessu, er hætta á því að við getum ekki haldið skólum almennilega opnum. Getum svo sannarlega ekki notið menningar í formi tónleika, leikhúss og svo framvegis. Sú hætta er nú yfirvofandi að þetta komi til að bitna á öðrum atvinnuvegum innanlands,“ segir Kári.

Farþegar hafa verið skimaðir í Leifsstöð frá miðjum júní.
Farþegar hafa verið skimaðir í Leifsstöð frá miðjum júní. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Hann bendir á að á milli 15. júní og 12. júlí hafi 50 verið greindir með smit á landamærunum, þar af tólf með virkt smit. Á þeim tíma hafi tveir einstaklingar sloppið smitaðir inn í landið.

Einn af hverjum sex sleppur sýktur í gegn

„Einn sjötti hluti þeirra sem eru smitaðir komast í gegn án þess að þeir náist,“ segir Kári og bætir við að núverandi samfélagssmit hafi dreift sér og erfiðara sé að kveða það í kútinn. 

„Við vitum líka að fjöldi tilfella í þeim löndum sem koma hingað er að aukast og líkurnar á því að fólk komi hingað smitað ríma ansi vel við tíðni tilfella í þess heimalandi,“ segir Kári en tilfellum hefur meðal annars fjölgað síðustu daga í Þýskalandi og Danmörku.

Hvað það snertir er það farið að líta skuggalega út og við vitum að það er að minnsta kosti einn sjötti sem kemur hingað sýktur sem sleppur í gegn. Hver einasti þeirra gæti byrjað faraldur eins og við höfum núna.

Kári telur að stjórnvöld séu á sömu skoðun og hann og að skimunin verði hert á landamærunum:

Ég yrði hissa ef þau myndu ekki setja eitthvað þessu líkt á innan skamms. Vegna þess að það er svo gífurlega mikilvægt að ná utan um þetta. Það er svo mikilvægt að koma í veg fyrir að svona smit af þessari gerð, svona bylgjur af þessum faraldri, lami samfélagið. Þessi bylgja er komin langt á leið með að gera það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina