Um 74 þúsund hafa nýtt ferðagjöf

Margir hafa nýtt ferðagjöf stjórnvalda á veitingastöðum. Alls hafa um …
Margir hafa nýtt ferðagjöf stjórnvalda á veitingastöðum. Alls hafa um hundrað milljónir króna runnið til veitingastaða með þessum hætti. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Þetta eru að jafnaði um tvö þúsund manns sem nýta ferðagjöfina á hverjum degi og það er góð skipting á milli geira,“ segir Þórhildur Gunnarsdóttir, ráðgjafi hjá Parallel. Fyrirtækið vinnur með Stafrænu Íslandi að útfærslu ferðagjafar stjórnvalda.

Fjölmargir hafa nýtt sér ferðagjöf stjórnvalda í sumar en allir einstaklingar 18 ára og eldri með lögheimili á Íslandi eiga rétt á 5.000 krónum sem nýta má við kaup á gistingu, mat og fleiru. Ferðagjöfinni var hleypt af stokkunum um miðjan júní og á þriðjudaginn höfðu alls 137 þúsund manns sótt sér ferðagjöfina og 54% þeirra, eða um 74 þúsund manns, höfðu nýtt sér gjöfina.

Þórhildur segir að mesta nýtingin hafi verið í júlí þegar allt að 2.500-3.000 manns hafi nýtt sér gjöfina dag hvern. Þegar kórónuveiran blossaði upp að nýju í síðustu viku hrundi nýtingin niður í um eitt þúsund manns á dag.

Alls hafa 372 milljónir króna skilað sér til ferðaþjónustufyrirtækja það sem af er sumri í gegnum ferðagjöfina. Fjórðungur þeirrar upphæðar hefur farið til veitingastaða og um 33% í gistingu. Um 31% hefur farið í ýmiss konar afþreyingu en afgangur í fólksflutninga. Hægt er að kynna sér ferðagjöfina á vefsíðunni ferdalag.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert