Veirufræðideild flytur í húsnæði ÍE

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Ljósmynd/Lögreglan

Hluti starfsemi sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans mun flytjast tímabundið í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri. Þetta kom fram í máli Karls G. Kristinssonar, yfirlæknis deildarinnar á blaðamannafundi almannavarna.

Við það mun afkastageta sýnatökunnar aukast til muna og verður hægt að greina um 5.000 sýni á degi hverjum. Verið er að undirbúa flutning og uppfæra hugbúnað sem þarf til, en gangi allt að óskum ætti flutningurinn að geta orðið í byrjun næstu viku.

Nokkur umræða hefur sprottið um aðbúnað á sýkla- og veirufræðideildinni, en Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði á dögunum að deildin hefði verið vanbúin til að takast á við veiruna strax í janúar og að ekkert hefði verið gert til að efla getuna.

Tæki keypt við fyrsta tækifæri

Karl kom inn á þetta á fundinum. „Vegna umræðu undanfarið um tækjamál deildarinnar má segja að tækjamálin hefðu mátt vera í betra lagi,“ sagði Karl. Hann benti á að Landspítalanum væri skammtað fé til tækjakaupa og mestur hluti þess fjár hefði undanfarið farið í endurnýjun gamalla tækja í stað frekari uppbyggingar.

„Það má segja að deildin í startholunum frá upphafi þessa. Við vorum búin að setja upp aðferðina til að greina SARS-kórónuveiruna mjög fljótt eða 31. janúar og gera síðan fjölmörg próf áður en fyrsta tilfellið greindist 28. febrúar.“

Sjálfvirk tæki til að takmarka einangrandi erðaefni úr sýnum væru hins vegar takmarkandi þáttur í afkastagetu. „Þau þurfa að fara í útboð og við vorum langt komin með útboðsgögn þegar faraldurinn skall á,“ segir Karl og bætir við að útboðsferli sé tímafrekt.

Neyðarstigi vegna kórónuveirufaraldursins var lýst yfir 6. mars en þegar það er gert þarf ekki að fara í útboð vegna kaupa á nauðsynlegum tækjum. „Þá fórum við strax í að panta nauðsynleg tæki,“ segir Karl. Afkastamikið einangrunartæki og pípetturóbot séu þegar komin til landsins og von er á öðru slíku í lok vikunnar. Afkastamesta tækið, sem getur greint 4.000 sýni er hins vegar ekki væntanlegt fyrr en í nóvember, en Karl benti á að gríðarleg eftirspurn væri eftir þeim í heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina