Breytt viðbrögð við eldgosi vegna Covid

Bifreið Slysavarnarfélagsins Landsbjargar við Skaftárskála eftir að eldgos varð í …
Bifreið Slysavarnarfélagsins Landsbjargar við Skaftárskála eftir að eldgos varð í Grímsvötnum 2011. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Vinna er hafin hjá almannavörnum við að fara yfir verkefnin sem voru unnin síðast þegar gaus í Grímsvötnum árið 2011 og skoða þau í samhengi við stöðuna sem er uppi í dag vegna Covid-19.

Þetta segir Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna á Suðurlandi, spurður út í viðbrögð við mögulegu gosi í Grímsvötnum, fari svo að hlaup sé að hefjast þar.

Björn Ingi Jónsson.
Björn Ingi Jónsson. mbl.is/ Sigurður Bogi Sævarsson

Fjöldatakmarkanir eru í gangi vegna kórónuveirunnar og að sögn Björns Inga þarf til dæmis að passa upp á sóttvarnir verði í lagi ef grípa þarf til rýminga og koma upp fjöldahjálpastöðvum ef stórt eldgos verður.

Litlar líkur eru þó taldar á því að eldgosið yrði stórt, eins og Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur greindi frá í samtali við mbl.is fyrr í sumar.

Vísindaráð almannavarna fundaði í morgun vegna Grímsvatna og mun funda næst klukkan 10 í fyrramálið. „Þetta er ekki orðið það afgerandi að við getum fullyrt neitt,“ segir Björn Ingi um stöðu mála. „Þetta skýrist vonandi á næstu dögum.“

mbl.is