Fossvogshlaupinu aflýst

Hlauparar á ferð í Reykjavík.
Hlauparar á ferð í Reykjavík. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Almenningsíþróttadeild Víkings og framkvæmdaraðilar Fossvogshlaups Hleðslu hafa ákveðið að aflýsa hlaupinu í ár en til stóð að halda viðburðinn 27. ágúst.

Fossvogshlaupið hefur verið eitt af vinsælustu götuhlaupum Íslands undanfarin ár og þátttakendur að jafnaði verið um 500-700 talsins, að því er segir í tilkynningu á facebooksíðu Víkings.

„Í ljósi hertari samkomureglna og tilmæla frá Almannavörnum vegna Covid-19 er óskynsamlegt að boða til viðburðarins um þessar mundir þar sem hópamyndun, sem fylgir óhjákvæmilega almenningshlaupum, getur aukið hættu á smiti af völdum veirunnar,“ segir í tilkynningunni, þar sem kemur fram að öryggi og heilsa þátttakenda, sjálfboðaliða og starfsmanna hlaupsins sé algjört lykilatriði.

mbl.is